149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:08]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég fór að glugga í umsagnir í ljósi ræðu hv. þingmanns og verð að viðurkenna að í fljótu bragði — mér getur hafa yfirsést — sé ég ekki umsögn frá Neytendasamtökunum um þau þingmál sem tengjast þriðja orkupakkanum. Ég ítreka að mér gæti hafa yfirsést með það nema umsögnin sé hluti af einhverri annarri umsögn, t.d. frá Félagi atvinnurekenda. Ég kann ekki alveg að segja til um það.

Hins vegar er Alþýðusamband Íslands búið að senda inn umsögn og vissulega hefur Alþýðusambandið látið allhressilega til sín taka þegar kemur að neytendamálum og því hvort breytingar á markaði séu neytendum í hag. Það er því áhugavert sem hv. þingmaður bar hér upp, að kalla eftir því hvar þessi neytendavernd er svona mikil í þessari innleiðingu. Fyrst þingmenn gera sér far um að skrifa um það, sérstaklega í greinum í landsmálablöðunum, er eðlilegt að biðja þá að benda á hvar það er.

Ég man ekki eftir því að aðrir en þingmenn Sjálfstæðisflokks hafi skrifað um málið með þessum hætti. Það kann að vera misminni. Ef neytendavernd felst fyrst og fremst í því að það sé einhvers konar samkeppni, sem er vitanlega ekkert virk á þessum markaði, er býsna langt seilst í að slá því fram að það sé stóri sannleikurinn í öllu málinu, ekki síst á markaði þar sem fákeppni er í rauninni ríkjandi.