149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:14]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég er hræddur um að hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hafi rétt fyrir sér varðandi greinar okkar ágætu félaga í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, að þær séu til helminga til heimabrúks gagnvart baklandinu og að hinn helmingurinn sé haldreipi að grípa í gagnvart þeim sjálfum. Þetta segi ég auðvitað í mestu vinsemd í garð þessara góðu þingmanna en ég verð að viðurkenna að mér þykir dálítið óþægilegt að hafa setið undir því dögum saman að við í Miðflokknum misskiljum, snúum út úr, beinlínis segjum ósatt og ljúgum í pontu þegar manni mætir síðan að kjarnaatriðin í rökstuðningi stuðningsmanna þingsályktunartillögunnar, (Forseti hringir.) innleiðingarinnar, halda ekki vatni. Menn ættu að líta í eigin barm.