149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:25]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni svarið. Við virðumst vera komin einhvern veginn á, hvað skal segja, vígvöll sem við höfum ekki mikla reynslu af að slást á þegar kemur að skaðabótum sem eru nú að raungerast út af röngum innleiðingum og kærum sem ríkið verður fyrir frá hagsmunaaðilum sem telja sig geta byggt rétt sinn á Evrópusambandsregluverkinu.

Það vakti sérstaka athygli og var kannski ein af bjöllunum sem hringdu þegar það var sérstaklega tilgreint — ég man ekki í hvaða plaggi það var eða hvaða aðstoðarmaður sagði það að menn hefðu mjög litlar áhyggjur af því að skaðabótaskylda skapaðist. Rökstuðningurinn fyrir því var sá að gerðin væri innleidd með hefðbundnum hætti, sem þýddi bara það að þessir fyrirvarar komu þar hvergi nærri.

Þessir fyrirvarar, eins og við vitum, eru auðvitað bara til heimabrúks til að gera hv. þm. Kolbein Óttarsson Proppé, sem sýnir okkur þá virðingu að vera hérna með okkur í salnum, velkominn, gaman að hafa hv. þingmann hérna — en stjórnarþingmennirnir eru furðu einróma um að þetta sé allt saman mjög fínt og flott. En því er sérstaklega lætt inn að lítil hætta sé á skaðabótamáli á sama tíma og menn segja: Það eru fyrirvarar alltumlykjandi og allt um kring en telja sig jafnframt vera búnir að tryggja að með því að innleiða þetta alveg (Forseti hringir.) nákvæmlega eins og það kemur af kúnni, (Forseti hringir.) þá séu fyrirvararnir ekki tengdir því með neinum hætti.