149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:28]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, ég sveikst um að svara annarri af spurningum hv. þingmanns í fyrra andsvari sem var um mat mitt á því hvort upphæðirnar í slíkum skaðabótamálum gætu orðið aðrar og meiri en þær sem við höfum hingað til séð. Ég held að það liggi alveg ljóst fyrir að þær yrðu ávallt það í einhverjum tengslum eða hlutfalli við þá hagsmuni sem eru undir.

Við að flytja orku í þeim mæli sem hér hefur verið rætt um á milli landa eða við lagningu sæstrengs og þann kostnað sem þar gæti falist við að reisa orkuver eru upphæðirnar í slíkum framkvæmdum náttúrlega stjarnfræðilega háar miðað við að flytja inn kótelettur eða eitthvað slíkt fyrir þessa þjóð.

Hv. þingmaður nefndi að hér hefðu menn litlar áhyggjur af skaðabótaskyldunni þar sem innleiðingin væri sú að innleitt væri á hefðbundinn hátt. Ég held að það sé alveg rétt að innleiðingin verður nefnilega þannig og ég sé ekki betur en að málatilbúnaðurinn sé allur þannig úr garði gerður að hér verði orkupakki þrjú innleiddur í heild sinni vegna þess að menn þora hreinlega ekki að standa í lappirnar og láta reyna á það hvort samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið sé raunverulega samningur eða hvort hann sé einhvers konar einhliða plagg sem okkur ber bara að beygja okkur undir og hlíta.