149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Hún er svolítið sérstök, eins og fram kemur í máli hv. þm. Bergþórs Ólasonar, þessi mikla áhersla á neytendavernd en án þess þó að vísa til þess í hverju hún felist. Mér þykir leitt að flestir þingmenn stjórnarmeirihlutans sem stóðu í dyragættinni áðan eru nú horfnir því að mig langar að biðja þá að vera hér á eftir þegar ég held mína ræðu því að ég þarf að spyrja þá nokkurra spurninga. Þarna er hv. þm. Hjálmar Bogi Hafliðason þannig að það væri fínt að hafa hann til að svara á eftir.

Varðandi neytendaverndina held ég að það sé eðlilegt, fyrst það er svona mikil áhersla á hana og þingmenn eru farnir að skrifa lærðar greinar í blöð um hana, að við köllum eftir því hvar hún er nákvæmlega. Það er annað líka sem mig langar að spyrja hv. þingmann: Ef við náum að fá þessu máli vísað til sameiginlegu EES-nefndarinnar — það sló mig aðeins út af laginu að ég var að horfa á rangan þingmann, svona er þetta nú, þetta rennur allt saman. Er eitthvað varðandi neytendaverndina sem kemur í veg fyrir að við getum í sjálfu sér tekið upp lög eða haft sem fyrirmynd lög annarra ríkja eða ríkjasambanda þegar við viljum bæta okkar neytendavernd? Er eitthvað sem kemur í veg fyrir að við einfaldlega afritum góð lög um neytendavernd yfir í íslensk lög og nýtum okkur þau þannig? Ég held að það sé ekkert í þessum málum sem er verið að leggja fram núna sem bæta sérstaklega hag neytenda.