149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Mig langar aðeins að skipta um gír og spyrja hv. þingmann út í það sem kemur fram í áliti Samtaka iðnaðarins um breytingu varðandi þriðja orkupakkann. Ég gríp aðeins niður í álitið en fer nánar yfir það í ræðu minni hér síðar. Samtök iðnaðarins vísa til vetrarpakkans svokallaða, hins fjórða orkupakka. Þar segir, með leyfi forseta:

„Að mati Samtaka iðnaðarins eru þar undirliggjandi ýmis hagsmunamál sem hafa frekari skírskotun til hérlendra hagsmunamála og aðstæðna en þriðji orkupakkinn. Á meðan þriðji orkupakkinn hefur takmarkaða skírskotun til hérlendra aðstæðna, umfram það að skerpa á þeim reglum sem þegar hafa verið settar á grundvelli fyrri orkupakka, er boðaður fjórði orkupakki mun víðtækari og því mikilvægt að áhersla verði lögð á að halda þar á lofti hérlendri sérstöðu …“

Þarna er alveg augljóst að Samtök iðnaðarins hafa í það minnsta eitthvert forskot á okkur alþingismenn varðandi innihald hins fjórða orkupakka. Það er ljóst að í honum felast einhvers konar tillögur eða breytingar sem hafa víðtækari skírskotun til aðstæðna á Íslandi en þriðji orkupakkinn, nota bene að þeirra mati.

Er þá ekki mikilvægt að við stöldrum við og veltum fyrir okkur, m.a. út frá neytendasjónarmiðum, hvort ekki sé eðlilegt að þessir pakkar, þrjú og fjögur, séu skoðaðar sem ein heild fyrst það er þegar farið að slá varnagla við því sem þar er á ferðinni? Það er sérstakt að stjórnarþingmenn skuli ekki hafa farið fremstir í flokki fyrir því að koma hingað og upplýsa okkur um að þessi fjórði orkupakki þurfi nánari skoðun nú þegar.