149. löggjafarþing — 107. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[08:37]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er hárrétt að álit Samtaka iðnaðarins er ekki mjög afdráttarlaust varðandi orkupakka þrjú. Það er hófstemmt, skulum við segja, hófstemmdara en maður hefði búist við þar sem maður gerir ráð fyrir því að verð á raforku myndi hafa veruleg áhrif á iðnfyrirtæki sem eru meðlimir í þessum samtökum. Það er ánægjulegt að sjá hins vegar að Samtök iðnaðarins virðast hafa lesið sér til og að þau gera sér grein fyrir því að fjórða orkupakkann leiði af þeim þriðja.

Hér hefur farið fram nokkur umræða í nótt og fyrrinótt sem menn hafa kosið að kalla: Og hvað svo? Ég held að það sé hárrétt og tek af heilum hug undir með hv. þingmanni að það væri sáluhjálparatriði í því að sjá þá greiningarvinnu sem fyrir liggur á afleiðingum orkupakka fjögur fyrir íslenskan almenning vegna þess að ef við gefum okkur að við séum skuldbundin til að innleiða þetta möglunarlaust verðum við líka að gefa okkur að hið sama muni eiga við með orkupakka fjögur.

Ef við getum ekki spyrnt við fótum hér og nú er sjálfsagt hægt að gleyma þeirri hugmynd og þarf ekki einu sinni að ræða svona tillögur í þinginu þegar pakkar fjögur og fimm koma inn. Þá hlýtur það bara að vera gert með einhverri einfaldri tilkynningu, (Forseti hringir.) að það verði birt í þingtíðindum eða eitthvað svoleiðis.