149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

langir þingfundir.

[15:05]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Ég vil taka undir með þeim sem áður hafa þakkað starfsfólki þingsins fyrir vel unnin störf undanfarin kvöld og nætur en jafnframt minna á og benda á það augljósa að það er forseti Alþingis með stuðningi meiri hluta forsætisnefndar sem stýrir því hvernig fundum er háttað á hinu háa Alþingi. Ég vil bara nefna að umræða gærdagsins tók einar 19 klukkustundir. Mér er það til efs að það hafi oft gerst áður að hér hafi staðið fundur í 19 klukkustundir án þess að einu sinni hafi verið efnt til umræðu um fundarstjórn forseta. Það verður því ekki hermt upp á okkur sem þar stóðum og ræddum málin að hafa verið að eyða tíma dags í þá dagskrárliði.

Ég vil nefna að hluti af tímastjórnuninni gæti verið ákvörðun forseta um að taka málið af dagskrá til þess að taka til óformlegrar skoðunar í farvegi utanríkismálanefndar og sjá hvort hægt er að svara einhverjum þeirra spurninga sem við í Miðflokknum höfum verið að reyna að kalla eftir svörum við undanfarna (Forseti hringir.) sólarhringa án þess að fá nein viðbrögð.