149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

langir þingfundir.

[15:09]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vildi þakka hæstv. forseta fyrir góða fundarstjórn og tillegg hans til að reyna að greiða fyrir umræðum með því að lengja þingfundi ef þörf krefur. Það er augljóst að hv. þingmenn Miðflokksins telja sig þurfa að ræða þetta mál mjög mikið. Ég verð að geta þess að fyrstu sólarhringana sem umræðan stóð tóku þingmenn stjórnarflokkanna mjög virkan þátt í umræðum, bæði í síðustu viku og raunar í fyrri umræðu líka, þannig að ekki er hægt að kvarta yfir því að það hafi verið einhver þátttökuskortur af hálfu þingmanna þeirra flokka sem mynda ríkisstjórnina eða styðja málið að öðru leyti. Það hefur hins vegar kannski dregið úr áhuga stjórnarþingmanna á að taka þátt í umræðunni þegar þingmenn Miðflokksins nota tíma sinn aðallega til að koma í ræðustól í andsvörum til að hrósa hver öðrum og spyrja spurninga sem þeir (Forseti hringir.) svara síðan í sömu orðum. Það er ekki mjög spennandi að taka þátt í þannig umræðu. Það er ekki mjög gefandi. (Forseti hringir.) En efnislega átti umræðan sér stað og henni var lokið áður en þetta málþóf (Forseti hringir.) Miðflokksmanna hófst. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)