149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:47]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M):

Forseti. Það er synd að hæstv. fjármálaráðherra sé hlaupinn út því að það vill svo til að ég hugðist einmitt í þessari ræðu, eins og ég hafði boðað, fjalla um fyrirvara norska þingsins sem hæstv. ráðherra virtist ekkert kannast við hér áðan. Hann velti fyrir sér hvort það kynni að vera að Norðmenn hefðu haft annars konar fyrirvara en íslensk stjórnvöld vegna þess að Noregur væri þegar tengdur við sameiginlegan raforkumarkað Evrópusambandsins. Þegar ég benti á að þrátt fyrir það hefðu Norðmenn líka talið sig þurfa að hafa slíkan fyrirvara varðandi nýja sæstrengi virtist hæstv. ráðherra misskilja það eitthvað og telja að sá fyrirvari Norðmanna væri á einhvern hátt jafngildur vangaveltum íslenskra stjórnvalda í greinargerð sem þau kjósa að kalla fyrirvara.

Jafnvel þó að Noregur sé tengdur við sameiginlegt raforkukerfi Evrópu telja Norðmenn sig þurfa að leggja fram lögformlegan fyrirvara varðandi viðbótartengingar við þann markað. Þeim mun meira sláandi er þá að þetta eina atriði sem íslensk stjórnvöld hafa talað um að þau hafi fyrirvara á, án þess þó að geta almennilega bent á þá fyrirvara, telji Norðmenn sig þurfa að dekka líka með lögformlegum fyrirvörum.

Í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra, og þá má ætla einhverjir aðrir líka, virðist hafa misst af fyrri ræðu minni um fyrirvara norska þingsins er líklega best að byrja aftur á fyrsta fyrirvara svo að menn nái heildarsamhengi þess sem norska Stórþingið samþykkti og þingmenn höfðu gert kröfu um ættu þeir að fást til að hleypa þriðja orkupakkanum í gegn.

Fyrsti fyrirvarinn segir að allt eftirlit með vatnsafli skuli vera á hendi ríkis og sveitarfélaga. Hvers vegna tekur norska þingið þetta sérstaklega fram ef þriðji orkupakkinn snýst ekki um neitt annað en hugsanlega tengingu og hefur engin áhrif án tengingar? Jú, vegna þess að orkupakkinn gengur ekki hvað síst út á vald ACER, sameiginlegu evrópsku orkustofnunarinnar. Norðmenn vilja með öðrum orðum fá undanþágu frá því að ACER ráðskist með norsk orkumál, í þessu tilviki vatnsaflsvirkjanir, hvort sem það er beint eða í gegnum ESA sem myndi ekki skipta öllu máli í þessu samhengi, enda hlutverk ESA eingöngu að framfylgja vilja ACER eða taka við drögum frá ACER um hvernig hlutum skuli háttað. Norska þingið tekur skýrt fram að það vilji í raun fá undanþágu frá þessu veigamikla atriði þriðja orkupakkans.

Íslensk stjórnvöld hafa ekki farið fram á neitt slíkt samkvæmt hinum svokölluðu fyrirvörum ríkisstjórnarinnar. Hvers vegna ekki? Hvers vegna er ekki litið til þessa fordæmis frá Noregi eða hinna fyrirvaranna sem ég hyggst rekja hér á eftir? Það verður að ítreka að þrátt fyrir vilja norska þingsins hafa fyrirvarar þeirra enn ekki fengið gildi, enda er ekki enn, 14 mánuðum seinna, komin staðfesting frá Evrópusambandinu um að það ætli að taka nokkurt mark á þessu. Sambandið hefur aldrei gert neitt með einhliða fyrirvara, eða einhliða tilkynningar um undanþágur, jafnvel ekki þegar menn gera það með eins lögformlegum hætti og í Noregi, hvað þá þegar það eru einhvers konar viljayfirlýsingar eins og íslenska ríkisstjórnin gengur út frá.

En þá að öðrum fyrirvara sem segir að almennt eignarhald á norskum vatnsorkuauðlindum skuli liggja fyrir og a.m.k. tveir þriðju hlutar skuli vera í eigu opinberra aðila. Þarna er verið að setja fyrirvara, fara fram á undanþágu, varðandi eignarhald sem er mjög áhugavert í ljósi umræðunnar hér þar sem því hefur verið haldið fram að þetta muni í rauninni ekki hafa nein áhrif á eignarhald. Norska þingið taldi ástæðu til að gera sérstakan lagalegan fyrirvara varðandi það atriði.

Tími minn er á þrotum, virðulegi forseti, en ég er rétt (Forseti hringir.) að komast af stað með þetta efni og bið forseta að setja mig aftur á mælendaskrá.