149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:00]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna. Mig langar til að spyrja hv. þingmann út í fimmta fyrirvara af þeim átta, sem hann var kominn áleiðis með að fara í gegnum, sem norska þingið setti án þess að neitt hafi verið gert með þá, nú 14 mánuðum seinna. Þar segir í lauslegri þýðingu, ekki frá löggiltum skjalaþýðanda, þannig að menn verða að virða mér það til vorkunnar, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir um nýja erlenda sæstrengi verða enn að vera fulltrúaákvörðun norskra yfirvalda.“ (Gripið fram í.) Hvað segirðu? (SDG: Reynslan af tveimur köplum.) Já, akkúrat. — „Reynslan af tveimur köplum sem nú er verið að byggja skal skoðuð áður en hægt er að taka tillit til nýrra erlendra tenginga.“ Þetta var lausleg þýðing.

Af hverju heldur hv. þingmaður að þingið telji nauðsynlegt að setja sérstakan lagalegan fyrirvara sem þennan þó að enn sé ekki útséð um hvort eitthvert hald sé í, nú þegar Noregur hefur verið tengdur hinu samevrópska kerfi um nokkra hríð og að þar ættu menn að þekkja fyrirkomulagið? Gæti verið að þetta væri vegna þeirrar upplifunar hinna norsku að ásælni Evrópusambandsins ágerist jafnt og þétt varðandi það að hafa stjórn á þessum hlutum og þeir sjái og séu búnir að átta sig á því að ACER eigi að gegna þarna hlutverki, sem þeir telja sig verða að verja sig gagnvart til að missa ekki stjórn á hlutunum og þeirri sérstöku aðgerð frá aðilum sem hafa nú þegar verið tengdir um allnokkra hríð? (Forseti hringir.) Hvaða skilaboð les hv. þingmaður út úr því?