149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Það blasir við að eina vitið hefði að sjálfsögðu verið að bíða með málið. Það undarlega er að þrátt fyrir þá yfirlýsingu hæstv. ráðherra sem rakin var hér áðan skuli menn hafa ákveðið að reyna að keyra þetta í gegnum þingið nú, þegar við erum ekki, eins og hv. þingmaður nefndi, komin með niðurstöðu norska stjórnlagadómstólsins, þegar við höfum ekki fengið nokkra einustu kynningu á fjórða orkupakkanum sem þó er verið að klára samkvæmt nýjustu fréttum í Evrópusambandinu og beintengdur þeim þriðja og þegar ekki hafa borist nein svör til Noregs um það hvort eitthvað verði gert með einhliða fyrirvara þeirra og þeir eru raunar ekki búnir að ganga frá lögfestingu þeirra, enda bíða þeir enn svara frá Brussel. Það er varla hægt að saka okkur Íslendinga um að tefja málið ef við erum að bíða eftir þeim upplýsingum (Forseti hringir.) sem við þurfum til að geta metið málið í heild.