149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:49]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Já, auðvitað er það alvarlegur hlutur þegar þingmenn segja það blákalt að raforkuverð hafi lækkað við innleiðingu orkupakka eitt og tvö og áframhaldandi innleiðing komi til með að þýða áframhaldandi lækkun raforkuverðs. Þetta eru fullyrðingar sem við höfum algerlega hrakið í málflutningi okkar. Ég hef bent á það oftar en einu sinni úr pontu og sýnt dæmi og reikninga um það. Dagblaðið Vísir var með grein um þetta árið 2005 um hækkun á raforkuverði um allt land og til fyrirtækja og heimila við innleiðingu orkupakka eitt og tvö við breytingu á raforkulögunum 2003. Ég er búinn að sýna fram á breytingu á veitusvæði Hitaveitu Suðurnesja, hækkanir á bilinu 74–96% til heimila sem kynda með rafmagni við innleiðingu orkupakka eitt og tvö. Ástæðurnar voru og eru þær að felldir voru úr gildi þessir svokölluðu sérsamningar, bæði til fyrirtækja og heimila, vegna þess að það var óheimilt samkvæmt þessari raforkutilskipun Evrópusambandsins.

En kjarni málsins er: Það er ábyrgðarhlutur að halda því fram. Þegar ég greindi frá þessu við fyrri umr. málsins man ég að kallað var frammí úr sal að þetta væri rangt hjá mér. Síðan saka þessir sömu aðilar og þingmenn okkur Miðflokksmenn um að fara með rangfærslur. Þetta er alvarlegur hlutur í umræðunni allri vegna þess að þetta er kjarni málsins þegar kemur að almenningi í landinu, þ.e. raforkuverð til heimilanna og svo fyrirtækjanna í landinu. Þetta er það sem almenningur skilur. (Forseti hringir.) Ef rafmagnið hækkar sjá menn enga ástæðu fyrir því að undirgangast þessar tilskipanir.