149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:57]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Svo ég haldi nú áfram að vitna í smábútum í hv. fyrrverandi þingmann, Ögmund Jónasson, þá hefur hann einmitt haldið því fram að þetta mál sé miklu stærra en flokkapólitík. Ég er honum hjartanlega sammála. Þetta mál ætti núna, ef hér væri allt með felldu á þinginu, að vera í sameiginlegu ferli okkar allra sem hér erum inni þannig að endaniðurstaðan á málinu yrði eins hagfelld og hægt er. Ögmundur kemur einmitt inn á þetta, og ég mun fara betur yfir það í næstu ræðu. Hér innan húss hverfast þessi mál nokkuð um flokkslínur, þó að það sé nánast einungis einn flokkur og jú annar minni með sem eru á móti þessum gjörningi hér inni.

Ögmundur segir orðrétt, með leyfi forseta:

„En það er svo undarlegt að þegar rætt er um málið manna á milli, úti í samfélaginu, þá blasir við allt önnur mynd. Þar eru hlutföllin allt önnur. Þar er fólk sem kaus Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í góðri trú, á allt öðru róli en meintir fulltrúar þeirra á Alþingi.“

— Meintir fulltrúar þeirra á Alþingi.

Og takið eftir því að þessi ágæti fyrrverandi kollegi okkar segir: Fólkið kaus þessa þrjá flokka í góðri trú. En flokkarnir þrír eru gersamlega að bregðast sínum kjósendum. Þó að þeir séu í smekkbuxum og með álímdan hártopp og guð má vita hvað, og í nýjum skóm, þá eru þau samt að bregðast kjósendum sínum.