149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:03]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M):

Herra forseti. Mér þykir hlýða, þegar hér er komið í umræðunni, að draga saman helstu þætti. Áður en ég geri það vil ég samt varpa fram einni spurningu: Sögðu ríkisstjórnarflokkarnir þrír og sögðu fylgihnettirnir þrír kjósendum það fyrir síðustu kosningar að þeir myndu afsala auðlindum þjóðarinnar í þeim mæli sem lýst er í lögfræðilegri álitsgerð lögfræðilegra ráðunauta ríkisstjórnarinnar, að erlendir aðilar myndu a.m.k. fá óbein áhrif á skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar?

Það er einmitt þetta sem ríkisstjórnin situr uppi með: Hún leggur fram mál. Hún leitaði eftir áliti færustu manna. Allt eru það vönduð og góð álit og höfundum sínum til sóma. Þeir tveir sem hér hafa oft verið nefndir, Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson, fjalla annars vegar um mögulegan árekstur þeirra gerða sem fylgja þessum orkupakka við stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, og á hinn bóginn fjalla þeir um ýmis áhrif af innleiðingu orkupakkans.

Hvað fyrra atriðið varðar er niðurstaða þeirra sú að verulegur vafi, það er þeirra orðalag — ég undirstrika orðið verulegur, það er árétting af þeirra hálfu og það að tvítaka það er önnur árétting — að verulegur vafi leiki á því að þau ákvæði sem þarna er verið að innleiða standist stjórnarskrá lýðveldisins. Á hinn bóginn fjalla þeir um áhrif af innleiðingunni og komast að þeirri niðurstöðu sem ég gat um í upphafi ræðu minnar, og það er ítrekað í álitinu, að erlendir aðilar komist í þá aðstöðu með samþykkt þessa orkupakka að geta haft a.m.k. óbein áhrif, þeir skilja það eftir hvort þau séu að einhverju leyti bein, herra forseti, á skipulag, á ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda þjóðarinnar.

Það er af þessum ástæðum sem við erum hér, þingmenn Miðflokksins, að fjalla um þetta mál og spörum okkur hvergi. Hér eru undir hagsmunir barna okkar, barnabarna og óborinna kynslóða í landinu. Þegar á reyndi fyrir 25 árum voru hér menn sem höfðu bein í nefinu og létu það ekki yfir sig ganga, við samþykkt EES-samningsins, og tóku ekki annað í mál en að fiskveiðiauðlindin yrði ekki undir í því máli. Nú er allt annað uppi. Nú virðast vera hér menn sem ráða fyrir löndum, með þeim fylgitunglum sem eru sveimandi í kringum þá og þessa þrjá ríkisstjórnarflokka, sem vilja og ganga fast fram í því, samþykkja að erlendir aðilar nái ítökum í annarri auðlind, sem er orkuauðlindin.

Málið var kynnt með þeim hætti, herra forseti, að til þess að vega upp augljósa veikleika ætti að setja lagalegan fyrirvara. Engin greining hefur farið fram á því með hvaða hætti þessi fyrirvari nær að upphefja þau vandamál sem eru í þessu máli. Og það hefur verið gerð mikil leit að honum eftir að hann gufaði skyndilega upp í ræðu hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins upp úr kl. fjögur 15. maí þegar hann greindi frá því að fyrirvarinn væri nánast ekki til sem slíkur, en ég sé að hann er hér kominn í drögum að reglugerð eins og að einhver texti í reglugerð megni að upphefja þjóðréttarlegar skyldur sem við öxlum með því að samþykkja þennan orkupakka.

Hér er fjölda spurninga ósvarað varðandi fjórða orkupakkann, varðandi reynslu Norðmanna sem beittu sér fyrir og settu átta fyrirvara. Og það þarf líka, herra forseti, að skýra afar sérkennileg ummæli álitsgjafa ríkisstjórnarinnar sem hingað kom, svissnesks lögmanns.