149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:08]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir ræðuna. Ég hef verið að velta fyrir mér hvað liggur í þessum orðum; skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlindarinnar, hvað það þýðir í raun og veru fyrir okkur. Ég hef hingað til verið að velta því svolítið fyrir mér hvort það tengist einhverjum böndum, þau drög sem liggja í samráðsgátt stjórnvalda þar sem fjallað er um breytingar á stjórnarskránni með tilliti til auðlinda. Ég ímynda mér einhvern veginn að þetta hangi saman, að það þurfi hreinlega að fara í það að huga að breytingum á stjórnarskrá svo allt planið gangi upp. Þess vegna myndi ég gjarnan vilja heyra betur hvað felst í þessum þriðja orkupakka og hvað hv. þingmaður á við þegar hann talar um skipulag, ráðstöfun og nýtingu orkuauðlinda, sem sannarlega kemur fram í þriðja orkupakkanum. Erum við þá að hugsa um virkjanirnar? Erum við að hugsa um bara það vatnsafl? Við erum með uppistöðulón og svo lengi mætti telja.