149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:01]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ólafi Ísleifssyni kærlega fyrir þessa fyrirspurn, vegna þess að það álit sem Carl Baudenbacher gerir að beiðni hæstv. utanríkisráðherra og kemur síðan fyrir hv. utanríkismálanefnd í kjölfarið er stútfullt af upplýsingum og maðurinn góður, fær og lögfróður, alveg klárt mál. En fram kemur í áliti hans þetta orð sem hefur verið notað mikið hér, annars vegar þessi neyðarhemill, sem hvergi er að finna í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, það orð er hvergi að finna þar, eða silfurkúlan, sem hefur verið notuð í tengslum við þessa álitsgerð líka og svo hollustuskylda, hollustuskylda við Norðmenn, ekkert slíkt. Hins vegar er talað um að vinna mál í sátt. Það er talað mjög ítarlega og í mikilli samfellu og á rökrænan hátt um hvernig mál komi inn í þennan samning, hvernig þeim skuli fylgt eftir, innleiðing og ef upp koma álitamál hvernig skuli höndla þau.

En eitt stingur í þeirri álitsgerð þar sem sagt er að Ísland hafi komið of seint fram með athugasemdir við innleiðinguna. En hver var ráðgjafi ríkisstjórnarinnar fram að þessum tímapunkti? Það var akkúrat sami maður og hann tekur það fram í álitsgerð sinni að hann hafi verið sérlegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar í málinu, Carl Baudenbacher. Er hann hæfur til að veita þá þetta álit eftir að hafa verið ráðgefandi (Forseti hringir.) lögmaður í þessu máli?