149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:25]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir spurninguna. Hann spyr um orkustefnu. Menn hafa ítrekað kallað eftir henni hér í ræðustól á Alþingi síðustu daga. Auðvitað er það undarlegt í hæsta máta að þjóð eins og við tilheyrum, með alla þessa orku, sem byggir velferð sína að svona miklu leyti á nýtingu orkunnar til atvinnu og hefur gert um langa hríð, eins og ég hef ítarlega farið yfir, hafi ekki heildstæða stefnu í þessum málum. Ekki bara vegna fallvatnanna eða gufuaflsvirkjana heldur ekki síður til framtíðar, til þeirra virkjunarkosta sem eru augljósir í dag, þ.e. vindorku o.fl.

Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort menn séu þá að bíða, ef ég skildi hann rétt, eftir að orkustefna Evrópusambandsins taki yfir og að við þurfum ekki neina sérstaka orkustefnu hér innan lands. Ég ætla mönnum ekki að þeir séu að gera slíkt. Það er enginn sæstrengur, kannski ekki alveg í nánustu framtíð. En ég vil taka undir með hv. þingmanni með það að auðvitað á þjóð sem byggir afkomu sína að svona miklu leyti á nýtingu fallvatna og gufuafls að hafa heildstæða og skýra stefnu í þessum málum.