149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:29]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Það er alveg rétt skilið hjá hv. þingmanni þegar hann orðar það sem svo að eftir því sem við innleiðum fleiri reglur og víðtækara regluverk úr hendi Evrópusambandsins þá þrengist um það vald sem við höfum til að setja reglur hér innan lands. Hann segir að við séum nú þegar að vinna að orkustefnu Evrópusambandsins. Það er auðvitað að einhverju leyti rétt vegna þess að við erum þegar búin að innleiða orkupakka eitt svokallaðan og orkupakka tvö og ýmis ákvæði þar gilda hér á landi.

Að því leyti til er það rétt að hluti af orkustefnu sambandsins hefur gildi hér á landi og kannski er það mergurinn málsins, og maturinn kálfsins, að við erum á hraðleið inn sem beinir viðtakendur slíkrar stefnu sem samin er í allt öðru umhverfi og á sér allt öðruvísi sögu og þróun en hér á landi. Ég hef eytt töluverðum tíma í að fara yfir hvernig þróun þessara mála hefur verið hérlendis. Hún er auðvitað með allt öðrum hætti en í umhverfinu í Evrópu þar sem eru milljónaþjóðir og mun fleiri orkugjafar, sem eru þá ekki endurnýtanlegir, ekki næstum allir, kol og kjarnorka og hvaðeina og í eigu ýmissa aðila, ekki bara ríkjanna heldur í eigu ýmissa einkaaðila. Við erum í allt öðru umhverfi. Það þarf að skoða það mjög vel ef við ætlum að fara að taka upp (Forseti hringir.) eftir þessum þjóðum einhverjar reglur sem eiga kannski alls ekkert við hér á landi, herra forseti.