149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:37]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég biðst afsökunar á að hafa ekki verið nógu skýr í framsetningu varðandi þetta dæmi, en hv. þingmaður komist einmitt að kjarna málsins þegar hann nefndi hversu erfitt væri að reikna alla þá þætti sem leiða myndu af því ef sala á raforkunni færi fram innan lands, jafnvel þótt salan væri á lægra verði en það sem Landsvirkjun kynni að fá fyrir að selja út úr landinu.

Ég myndi geta mér þess til að jafnvel þótt Landsvirkjun fengi 40% hærra verð fyrir að geta tengst evrópska orkumarkaðnum og geta selt orkuna út þá myndi eigandi Landsvirkjunar, það er lykilatriði í þessu, sem er auðvitað íslenska þjóðin, á endanum fá miklu meira fyrir sölu á þessari orku ef hún væri seld hér innan lands og myndi leiða til fjölgunar starfa og aukinna skattgreiðslna o.s.frv. Þá kæmu ekki aðeins 100 milljónirnar í kassa Landsvirkjunar fyrir orkusöluna, skatttekjurnar kæmu frá þessum 120 starfsmönnum sem ella hefðu ekki fengið vinnu vegna þess að fyrirtækið hefði ekki hafið rekstur hér á landi. Það kæmu líka skatttekjur af hinum ýmsa varningi og þjónustu sem þessir starfsmenn myndu kaupa. Það kæmu alls konar tekjur af hliðaráhrifum þessarar starfsemi hinnar ímynduðu verksmiðju í Þorlákshöfn.

Þegar allt er talið, herra forseti, myndi ég telja óhætt að álykta sem svo að allir þessir viðbótarþættir sem hv. þingmaður nefndi — sem vissulega er rétt hjá honum, það er erfitt að setja fasta tölu á þá — væru á endanum miklu meira virði fyrir eiganda Landsvirkjunar, almenning á Íslandi, en þær 140 milljónir sem fyrirtækið fengið fyrir að selja orkuna út.