149. löggjafarþing — 108. fundur,  22. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:50]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Jóni Þór Þorvaldssyni fyrir andsvarið. Í mínum huga er alveg augljóst að leiðin sem eðlilegast væri að fara núna er sú að vísa málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar og með því skapaðist auðvitað tækifæri fyrir frændur okkar í Noregi til að fá sína fyrirvara tekna upp í þeirri sömu nefnd á þeim forsendum sem EES-samningurinn sjálfur fyrirskrifar í 102. gr.

Ég er bara ekki nógu kunnugur því, verð ég að viðurkenna, hvort mismunandi fyrirvarar hinna ýmsu ríkja innan EES teljist orsaka það að þjóðirnar tali ekki einum rómi, aðstæður geta eflaust verið mismunandi í hverju landi. En það er alveg ljóst að reynsla Norðmanna af því að hafa verið tengdir yfir landamæri hvað innviði rafmagnsflutninga varðar kallar á að þeir vilji gera átta fyrirvara. Það segir manni ýmislegt, held ég að óhætt sé að segja. Það að aðili sem þegar er tengdur og hefur reynslu af því að vera tengdur geri átta fyrirvara segir væntanlega að ýmislegt sé þarna sem við erum hugsanlega ekki farin að kynnast en ástæða sé til að hafa í huga.

Ef þær fréttir sem maður heyrði af því hvernig þetta atvikaðist í Noregi allt saman eru að megninu til réttar eru verulegar efasemdir um innleiðinguna þar. Nú fyrst eru menn orðnir órólegir þegar hvorki hefur heyrst hósti né stuna frá Evrópusambandinu í heila 14 mánuði varðandi þá átta fyrirvara sem gerðir voru. Þess vegna held ég að það sé svo mikilvægt fyrir Norðmenn að við förum þá leið, Íslendingar, að vísa (Forseti hringir.) málinu til sameiginlegu EES-nefndarinnar. Þá opnast sá kanall fyrir þá sömuleiðis, geri ég ráð fyrir.