149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:08]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Þetta var áhugaverð ræða um ásælni Evrópusambandsins og hvernig eitt leiðir af öðru hjá því. Mér varð hugsað til viðtals sem breska blaðið Daily Telegraph tók við hæstv. fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson, afar gott viðtal, herra forseti. Ég hvet forseta til að lesa það viðtal. En mig langar í ljósi orða hv. þingmanns áðan að bera undir hann út úr þessu viðtali og spyrja hann hvort hann sé þá sammála því mati sem hér birtist. Mér heyrist hv. þingmaður vera nokkurn veginn að tala á sömu nótum og hér en þar sem þingmálið er íslenska ætla ég að styðjast við frétt Viðskiptablaðsins sem segir frá viðtalinu. Þessi frétt er frá 23. apríl 2018. Með leyfi forseta:

„„Evrópusambandið álítur sjálfstæði okkar vera vesen,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í viðtali við breska blaðið Telegraph, og lítur hann á að yfirvöld í Brussel séu að taka sér sífellt meiri völd í gegnum EES. Segir það hneykslanlegt ef sambandið telur að Íslendingar samþykki eitthvað annað en núverandi tveggja stoða kerfi í gegnum EES.

Íslensk stjórnvöld eru sögð óhress með hve þrýstingur Evrópusambandsins sé sífellt að aukast á að hér verði teknar upp síauknar viðbótarreglur, nú síðast vegna orkumála og meðferðar matvælaeftirlits. Sagði hann stjórnvöld í Evrópusambandi líta á sjálfstæði landsins sem sífellt meira vesen, en hann segir í viðtalinu að dýpri samþætting allra hluta innan sambandsins sé að gera Íslandi erfitt fyrir að gæta þjóðarhagsmuna sinna.“

Er hv. þingmaður sammála þessari afstöðu hæstv. fjármálaráðherra?