149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:13]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Forseti. Já, þetta virðist vera þróunin, en þá verð ég að fá að spyrja hv. þingmann sérstaklega út í eina setningu sem höfð er eftir hæstv. fjármálaráðherra í þessu viðtali. „Íslensk stjórnvöld eru sögð óhress með hve þrýstingur Evrópusambandsins sé sífellt að aukast á að hér verði teknar upp síauknar viðbótarreglur“ — hv. þingmaður hefur fjallað töluvert um þetta — „nú síðast vegna orkumála og meðferðar matvælaeftirlits.“

En í ljósi þess að hæstv. fjármálaráðherra hefur áhyggjur af þessum tveimur þáttum, orkumálum og meðferð matvælaeftirlits, hvernig stendur þá á því að ríkisstjórnin rær nú að því öllum árum að koma í gegn þessum viðbótarreglum Evrópusambandsins varðandi orkumál og er á sama tíma með fyrirliggjandi frumvarp um að gefa eftir gagnvart sambandinu á sviði matvælaeftirlits eða innflutnings á ófrosnu kjöti og ógerilsneyddum matvælum?