149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:21]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að engum dytti í hug að hóta Norðmönnum því að ef þeir verðu hagsmuni sína í samræmi við það sem EES-samningurinn gerir ráð fyrir kynnu þeir að verða reknir úr EES-samstarfinu. En af því hv. þingmaður nefnir Carl Baudenbacher — ef Baudenbacher er að fylgjast með sendi ég honum mínar bestu kveðjur — vil ég minna á þau orð hans að Norðmenn hafi litið á Íslendinga sem einhvers konar viðhengi í EES-samstarfinu og það sé mikilvægt fyrir Íslendinga að lúta valdi, það var ekki orðað alveg þannig, eða fylgja því sem Norðmenn ætlast til af okkur.

Þetta eru mjög hættuleg skilaboð vegna þess að ef við tækjum mark á þessum skilaboðum og ætluðum að fylgja þeim værum við að gefa mjög varasamt fordæmi og hverfa frá því sem er eitt af grundvallaratriðum EES-samstarfsins, að þar séu öll ríkin jafn rétthá, að þau séu í þessu samstarfi eða komi að þessum samningi á jafnréttisgrundvelli.

Þegar þetta tvennt kemur saman, annars vegar sú staðreynd sem ég geri ráð fyrir að við getum báðir verið sammála um, ég og hv. þingmaður, að engum dytti í hug að reka Noreg úr EES-samningnum og svo sú staðreynd að ríkin séu öll á jafnréttisgrundvelli, því skyldi þá einhverjum detta í huga að reka Ísland úr EES-samstarfinu og með því setja samninginn allan í uppnám, ekki bara fyrir Ísland heldur fyrir Liechtenstein, fyrir Noreg og líka fyrir Evrópusambandið?