149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:43]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég treysti mér ekki til þess að tilgreina stað hér og nú þar sem við gætum komið fyrir eins og einni Kárahnjúkavirkjun, ekki eins og andrúmið er gagnvart orkuuppbyggingu í landinu. Það hefur verið markvisst unnið að því — og nú er rétt að taka fram að ég er fylgjandi frekari orkuframleiðslu í landinu, en ég hef allar efasemdir um að innleiðing þriðja orkupakkans verði okkur til hagsbóta. En ég held að það að bæta í þá orkunýtingu sem þarf til að fæða streng til viðbótar við það umframafl sem er í kerfinu núna og ónýtist að hluta — ég er ekki með þær tölur í huganum eða í minninu en væntanlega þarf að ganga eitthvað dálítið inn í nýtingarflokk rammaáætlunar á þá valkosti sem þar eru til að ná upp í þá tölu.

Það vakti sérstaklega athygli mína að Landvernd og sambærileg samtök skyldu ekki hafa séð ástæðu til að senda umsögn um þriðja orkupakkann til Alþingis eða nefndasviðs. Afstaða náttúruverndarsamtaka við vinnslu þessa máls hefur því komið mér á óvart. En að plokka út heila Kárahnjúkavirkjun — ég treysti mér ekki til að segja (Forseti hringir.) hvar væri hægt að koma henni fyrir í einu lagi, en það yrði töluvert átak sem ég held að illmögulegt yrði að koma í gegn miðað við andrúmið í augnablikinu.