149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:17]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni ræðuna. Ég vil staldra aðeins við undanþágur sem hafa verið veittar í EES-samningnum og þá leið okkar sem við höfum samkvæmt 102. gr. í samningnum að fara með málið þangað, hina lögformlegu leið, til að fá niðurstöðu sem er ásættanleg fyrir okkur.

Það segir í 102. gr., með leyfi forseta:

„Sameiginlega EES-nefndin skal einkum gera sitt ýtrasta til að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við …“

Síðan höfum við það að þessi lausn gæti verið sú að við yrðum undanþegin orkupakkanum í heild sinni. Þá hafa menn sagt að þetta hafi aldrei verið notað, að við höfum aldrei vísað þessu þangað inn á því 25 ára tímabili sem samningurinn hefur verið í gildi. En ég minni á að það voru áratugir, ef ekki nánast heill mannsaldur frá því að við höfðum ekki notað 26. gr. í stjórnarskránni um að vísa málum til þjóðarinnar, málskotsréttinn, en það var síðan gert og enginn gerði athugasemd við það. Að halda því fram að þetta sé ekki hægt eða gerlegt út af því að samningurinn sé 25 ára gamall og þetta hafi aldrei verið notað eru náttúrlega rök sem eiga bara ekki að heyrast. Þetta er þvílík rökleysa að mínu mati, frú forseti.

Mig langar aðeins að spyrja hv. þingmann út í þetta, þ.e. fordæmi eru fyrir undanþágum. Ég nefni jarðgasið og skipaskurði sem dæmi. Er nokkur áhætta (Forseti hringir.) fólgin í þessu? Hvað hefur hv. þingmaður (Forseti hringir.) fram að færa í þeim efnum og hvernig lítur hann á það?