149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:12]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er hægt að finna fjölmörg dæmi, raunveruleg dæmi um hvernig þessi stofnun hefur skipt sér af gangi mála í raforkumálum í aðildarríkjum Evrópusambandsins, þeim ríkjum sem þegar hafa innleitt þriðja orkupakkann. Hvað varðar spurningu hv. þingmanns um hvort það kæmi í hlut íslenska ríkisins að ryðja hindrunum úr vegi má ekki líta fram hjá því hlutverki sem Orkustofnun myndi gegna í þeim efnum. Hún yrði nokkurs konar útibú fyrir þessa samevrópsku stofnun og hefði þá eftirlit með því að íslensk stjórnvöld legðu ekki stein í götu vænlegra framkvæmda af slíku tagi heldur þvert á móti að íslensk stjórnvöld höguðu málum þannig að það væri til þess fallið að ýta undir og flýta slíkum framkvæmdum.