149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[04:38]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það skyldi þó aldrei vera að dr. Baudenbacher væri beinlínis að benda á þá leið sem við höfum talað svo mikið fyrir og er auðvitað, eins og öllum er ljóst, innbyggð í EES-samninginn. Ég er á sama tíma nokkuð viss um að þeim sem fengu dr. Baudenbacher til verkefnisins hefur ekki þótt þessi knappa setning hans í lok 15. liðs í stóru skýrslunni heppileg, enda er ekki vakin nein sérstök athygli á því sjónarmiði sérfræðingsins þegar samanteknu upplýsingarnar eru dregnar fram. Ekki er hægt að skilja það öðruvísi en svo að það sé alveg ljóst að hann leggist ekki gegn því að farið sé í það sáttaferli sem er innbyggt í 102. gr. og ekki þarf að túlka það neitt frjálslega (Forseti hringir.) til að sjá að hann sé þarna beinlínis að leggja til að það verði gert og að það verði öllum að meinalausu.