149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:05]
Horfa

Frsm. minni hluta utanrmn. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (M) (andsvar):

Herra forseti. Það sem hv. þingmaður nefndi í andsvari er svo stórt atriði að ég tel að því verði ekki gerð almennileg skil í andsvörum. Ég held að fjalla þurfi sérstaklega um þetta í ræðum; þær væntingar, lögmætu væntingar, sem íslensk stjórnvöld eru með framgöngu sinni í þessu máli að búa til og fyrir vikið sá skaði sem af því getur hlotist ef menn grípa þessar lögmætu væntingar á lofti og telja sig svikna gangi þær ekki eftir.

En annar rauður þráður í því sem hv. þingmaður fór yfir eru markmið sem birtast hvað eftir annað um að ryðja hindrunum úr vegi. Er þá ekki óhætt að ætla að þegar þar að kemur, að menn telji sig vera að ryðja burt hindrunum, verði sagt: Við erum að gera hér jákvæðan hlut, við erum að fjarlægja hindranir? Og á þeim forsendum verði erfitt fyrir okkur Íslendinga að gæta hagsmuna okkar sem skyldi?