149. löggjafarþing — 108. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[05:21]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið og ég tek undir það með honum að það verði tæplega á ábyrgð okkar Íslendinga að bæta upp orkuskort í Evrópusambandinu. Það virðist hins vegar vera að Evrópusambandið horfi hýru auga til okkar í þessum efnum.

Herra forseti. Það er alveg ljóst að þegar sæstrengur verður orðinn að veruleika verður mikil uppbygging í orkuvinnslu í landinu — og hún er þegar hafin, vegna þess að menn vita að það eru mikil tækifæri í þessum geira fyrir hreina orku og horfa þá til þess að selja orkuna til Evrópu. En gæti verið að þingmenn í flokki eins og Vinstri grænum séu bara svo grænir að þeir átti sig ekki á því að sæstrengur mun þýða stórkostlega uppbyggingu raforkumannvirkja á Íslandi á kostnað náttúrunnar?