149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[15:41]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er sannarlega mikilvægt að rifja upp það merka viðtal sem hv. þingmaður gerði hér að umtalsefni. Ýmis ummæli sem féllu þar vekja auðvitað athygli og hafa skírskotun inn í þá umræðu sem hér fer fram.

Varðandi áhyggjur sem þarna koma fram af tveggja stoða kerfinu, sem liggur til grundvallar þátttöku okkar í EES-samstarfinu, er sjálfsagt að líta á hvað þeir ágætu höfundar Friðrik Árni Friðriksson Hirst og Stefán Már Stefánsson hafa að segja um það. Það er heilmikill texti í kafla 4.3.3, Er valdframsal til ESA vel afmarkað og skilgreint? Ályktun þeirra er sú að þegar höfð séu í huga þau miklu áhrif sem ACER hafi á ákvörðunartöku ESA falli slíkt fyrirkomulag illa að tveggja stoða kerfi EES-samningsins sem er meðal þeirra viðmiðunaratriða sem litið sé til við mat á því hvort framsal ríkisvalds til alþjóðlegra stofnana rúmist innan stjórnarskrárinnar. Þetta er alveg skýrt.