149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[16:39]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Það er ástæða til að þakka hv. þingmanni og ekki bara fyrir að halda okkur upplýstum um úrslit handboltakappleikja fyrir austan fjall, heldur einkanlega og ekki síður fyrir að draga saman þetta safn sem hefur myndast af rannsóknartilgátu — ég leyfi mér að kalla það, komandi úr háskólaumhverfinu — um í hverju þessi lagalegi fyrirvari gæti hugsanlega falist.

Atburðarásin er þessi: Laust upp úr klukkan fjögur 15. maí sl. gufaði lagalegi fyrirvarinn upp í ræðu hv. formanns þingflokks Sjálfstæðisflokksins. Hv. þingmaður lýsti fátinu sem kom hér á hv. þingmenn ýmsa sem heyra stjórnarmeirihlutanum til og fylgihnöttunum í þessu máli. Þá fljótlega komu fram nokkrar tilgátur og reyndar ekki settar fram sem tilgátur heldur fullyrðingar um í hverju þessi lagalegi fyrirvari fælist og þeim hefur ósköp einfaldlega farið fjölgandi síðan.

Ég var nú að fletta á rafrænum samskiptavef sem margir þekkja og kallast í daglegu tali Fésbók. Þar er hv. þingmaður úr stjórnarliðinu, Silja Dögg Gunnarsdóttir, að fjalla um þetta mál af mikilli hind og mér sýnist mega greina a.m.k. tvo lagalega fyrirvara í þeirri færslu sem þar getur að líta. Fjöldi fyrirvaranna sýnist því enn fara vaxandi, hv. þingmaður, og nauðsynlegt að haldin verði nákvæm skrá um þessa fyrirvara.