149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[17:42]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni fyrir ræðuna, sem er, eins og fyrri ræður, mjög góð og áhugaverð. Viðtalið sem hv. þingmaður hefur verið að vísa í er afar áhugavert. Þar er í raun og veru gefin yfirlýsing á alþjóðlegum vettvangi í þessu viðtali hver hugur hæstv. ráðherra er en ekki síður hver stefna stjórnvalda á Íslandi er og að það komi skýrt fram að við ætlum að fara eftir EES-samningnum og að hann beri að virða, það sé bara þannig.

Er ekki svo að skilja að miðað við samninginn sjálfan sé ekki í hug hæstv. ráðherra, alla vega ekki á þeim tímapunkti þegar viðtalið er tekið, að setja neina fyrirvara? Er ekki nokkuð ljóst að það að fara eftir því sem í samningnum stendur þýði einfaldlega að fara eftir orðanna hljóðan, sem kemur einmitt fram í 97. gr. EES-samningsins, með leyfi forseta:

„Með fyrirvara um meginregluna um jafnræði og eftir að öðrum samningsaðilum hafa verið veittar upplýsingar þar um hefur samningur þessi ekki áhrif á rétt einstakra samningsaðila til að breyta innlendri löggjöf á þeim sviðum sem samningurinn tekur til:

ef sameiginlega EES-nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að löggjöf eins og henni hefur verið breytt hafi ekki áhrif til hins verra á framkvæmd samningsins; eða

ef skilyrðum 98. gr. hefur verið fullnægt.“

Þýðir þetta ekki einfaldlega að ef þessir fyrirvarar eru settir inn hafa þeir raunverulega áhrif til hins verra á framkvæmd samningsins vegna þess að eftir innleiðingu (Forseti hringir.) verður innleiðingin hluti af samningnum?