149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[18:06]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsræðu. Ég verð að vera sammála þingmanninum í því að rétt sé að gera ekki bara greiningu á áhrifum á raforkuverð heldur væri kannski rétt að byrja á því að greina hvort þessir fyrirvarar séu í samræmi við eða hvort þá sé hreinlega að finna í ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 sem er frá 5. maí sama ár.

Ég er með þetta merkilega plagg, ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar frá 5. maí. Það plagg fjallar um það hvað beri að fella inn í samninginn. Í þessari merkilegu samantekt segir, með leyfi forseta:

„Ákvarðanir Eftirlitsstofnunar EFTA skulu, án ótilhlýðilegrar tafar, samþykktar á grundvelli draga sem stofnunin hefur samið að eigin frumkvæði eða að beiðni Eftirlitsstofnunar EFTA.

Þegar stofnunin semur drög fyrir Eftirlitsstofnun EFTA í samræmi við þessa reglugerð skal hún tilkynna það Eftirlitsstofnun EFTA. Hin síðarnefnda skal setja frest sem eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna hafa til þess að gefa álit sitt á málinu, að teknu fullu tilliti til þess hversu málið er brýnt og flókið og afleiðinga sem það kann mögulega að hafa.“

Enn fremur segir:

„Eftirlitsyfirvöld EFTA-ríkjanna geta óskað eftir því að Eftirlitsstofnun EFTA taki ákvörðun sína til endurskoðunar. Eftirlitsstofnun EFTA skal senda slíka beiðni til stofnunarinnar. Ef þannig ber undir skal stofnunin íhuga að semja ný drög fyrir Eftirlitsstofnun EFTA og svara án ótilhlýðilegrar tafar.“

Í samningnum sjálfum segir að samningsaðilar skuli „gera allar viðeigandi almennar eða sérstakar ráðstafanir til að tryggja að staðið verði við þær skuldbindingar sem af samningi þessum leiðir. Þeir skulu varast ráðstafanir sem teflt geta því í tvísýnu að markmiðum samnings þessa verði náð. (Forseti hringir.) Þeir skulu enn fremur auðvelda samvinnu innan ramma samnings þessa.“

Þýðir þetta ekki einfaldlega það, hv. þingmaður, að þessir fyrirvarar geta aldrei haldið?