149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[19:15]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég gæti ekki verið meira sammála þessari greiningu, að við ættum að senda þetta aftur í sáttameðferð. Hvernig gengur það fyrir sig? Jú, tveir af okkar helstu áttavitum í Evrópurétti tala í álitsgerð sinni um hvernig best sé að fara með málið þar sem verulegur vafi leiki á því að þetta standist stjórnarskrána. Sáttameðferðin er sérstaklega tilgreind í samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Sáttameðferðin er 111. gr. sem er undir þriðja þætti um lausn deilumála. Með leyfi forseta, segir þannig að þetta sé alveg skýrt, og í þessu felst engin pólitísk óvissa svo það komi fram:

„Bandalagið eða EFTA-ríki getur lagt deilumál er varðar túlkun eða beitingu samnings þessa fyrir sameiginlegu EES-nefndina í samræmi við eftirfarandi ákvæði.

Sameiginlegu EES-nefndinni er heimilt að leysa deilumálið. Henni skulu gefnar allar upplýsingar sem hún kann að þarfnast til þess að framkvæma nákvæma rannsókn á málinu, með það fyrir augum að finna lausn sem aðilar geta sætt sig við. Í þessum tilgangi skal sameiginlega EES-nefndin rannsaka alla möguleika til að viðhalda góðri framkvæmd samningsins.“

Getur þetta verið skýrara, hv. þingmaður? Hér er ekki verið að mæla fyrir einhverju offorsi eða upplausn, heldur sátt eins og þeirri sem við ættum að vera að ná í þessum sal.