149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:31]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Bergþóri Ólasyni fyrir fyrirspurnina. Hún er í fullkominni samfellu við það mál sem ég var að byrja á í ræðu minni. Ég held að almenningur sé einmitt mjög meðvitaður um annars vegar sjálfstæði Íslands og hins vegar það að vera ekki fullvalda þjóð. Það er ekki svo langt síðan við héldum upp á afmæli þessu tengt, gott ef það var bara ekki síðasta sumar.

Í álitsgerðinni sem ég kom inn á í ræðu minni þá segir m.a.:

„Orkustofnun verður óháð innlendu ráðherravaldi, hefur vítt verksvið og miklar valdheimildir, tekur við ákvörðunum frá ACER og framkvæmdastjórn ESB með milligöngu ESA.“

Í þessum texta er það sem raunverulega stendur í innleiðingunni og reglugerðunum sem fylgja henni sagt á mannamáli. Þess vegna finnst fólki þetta kannski bratt orðað, kannar ekki hvað frumheimildin segir í raun og veru og þess vegna eru svörin eins og þau hafa verið. Fólki finnst þetta bara ótrúlegt. En þeir sem hafa kynnt sér þetta og þeir sem eru aðilar að þessum hagsmunasamtökum, Orkunni okkar, eru flest allt fólk sem hefur mikinn áhuga á þessu máli og hefur kynnt sér það vel. Það hefur ekki bara fengið kynningu á því hjá mönnum sem eru löglærðir heldur líka mönnum sem eru verkfræðingar og hafa starfað í orkugeiranum lengi og skilja hvað þetta þýðir vegna þess að þeir hafa séð þessa hluti raungerast innan Evrópusambandsins. Það er ástæða þess að fólk er hrætt við þetta, þetta er stærra mál en margur myndi hyggja.