149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EFS-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[20:35]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að það sé óhætt að fullyrða að svo sé. Eftir innleiðingu í þeim ríkjum sem innleiða að fullu fellur stofnunin ekki undir framkvæmdarvald þess sjálfstæða og fullvalda ríkis sem hún er í. Til þessarar stofnunar hefur verið vísað sem landsreglara en í tilfelli Íslands verður þetta Orkustofnun. Hún mun verða algjörlega óháð og aðskilin framkvæmdarvaldinu, þ.e. hún tekur ekki við fyrirmælum frá ráðherra eða öðrum yfirvöldum frá Íslandi þrátt fyrir að hún sé fjármögnuð af þeim yfirvöldum. Valdheimildirnar felast m.a. í því að fara með sektarheimildir á aðila í orkugeiranum. Það vald er yfirleitt og í flestum tilfellum á hendi dómstóla, þ.e. að skera úr um sekt eða sakleysi og ég tala nú ekki um að beita refsingum.

Ég held því að sá ótti og sú tilfinning sem fólk hefur um að þarna sé gengið út fyrir þennan ramma og að heimildirnar séu ekki vel afmarkaðar sé á rökum reist og ekki bara á rökum reist heldur studd ákaflega ítarlegum álitsgerðum hinna ýmsu fræðimanna og sérstaklega þó tveggja fræðimanna sem eru ráðgjafar ríkisstjórnarinnar einmitt í þessu máli.