149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[21:56]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er kannski helst að leiða fram vitni í þessu máli. Leiðum fram vitnið svissneska lögmanninn Carl Baudenbacher. Hann setti út úr sér eina lögfræðilega setningu sem maður a.m.k. man eftir og hitt eru pólitískar vangaveltur, hugleiðingar og bollaleggingar. Lögfræðilega setningin er: Þessi margumtalaða 102. gr. sáttmálans um Evrópska efnahagssvæðið er í gildi. Íslendingar geta beitt henni. Afgangurinn af hans málflutningi sýndist að verulegu leyti felast í, eins og ég sagði, vangaveltum, bollaleggingum um það hversu vel færi á því í máli af þessu tagi, eins og það hljómar þegar búið er að snara orðum hans á íslensku, að fara þá leið.

Í máli af þessu tagi er ósköp einfaldlega uppi að það er ætlast til þess af Íslendingum að þeir kaupi aðgang að markaði og gjaldi fyrir með aðgangi að auðlindum. Við höfum vitnið Jón Baldvin Hannibalsson sem í umsögn sem liggur fyrir Alþingi sem skjal í þessu máli, sem hann bar náttúrlega ásamt Davíð Oddssyni höfuðábyrgð á á sínum tíma, fullyrðir að það hafi aldrei staðið annað til en að Íslendingum væri fær sú leið að fara á grundvelli 102. gr. með mál sem ekki samrýmdust hagsmunum þjóðarinnar fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Og sama hefur Davíð Oddsson ritað í sitt blað, Morgunblaðið, í greinum sem auðþekkjanlega, þótt ómerktar séu, bera hans einkenni.

Ég tel að þessi staða sé algjörlega skýr. Það hefur ekki verið sýnt fram á það með (Forseti hringir.) nokkrum hætti að þessi leið sé lokuð. Það eru bara hróp (Forseti hringir.) og frammíköll og upphrópanir og að engu hafandi.