149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:03]
Horfa

Jón Þór Þorvaldsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Enginn ágreiningur er gerður um það af þeim sem hér stendur að málið er ekki þingtækt og ég tek undir orð hv. þingmanns um að sæmst væri að vísa málinu frá. Þannig er nú umgjörð þess öll og uppbygging. Það hefur vakið athygli að eftir því sem umræðan dýpkaði þeim mun minna höfum við séð af stjórnarliðum hér og fylgismönnum frumvarpsins.

Mig langar, með leyfi hæstv. forseta, að vitna hér í ræðu hæstv. utanríkisráðherra í fyrri umræðu um þessa þingsályktunartillögu frá því 9. apríl 2019, þar sem hann hefur ekki verið hér til svara, með leyfi forseta:

„Í því sambandi skiptir líka afar miklu máli sameiginlegur skilningur með orkumálastjóra ESB á þeirri sérstöðu sem Ísland nýtur gagnvart sameiginlegum orkumarkaði. Þeir sérfræðingar sem leitað hefur verið til eru líka á einu máli um að sá sameiginlegi skilningur styrki mjög þær forsendur sem við leggjum til grundvallar innleiðingunni. Þótt yfirlýsingin hafi ekki bein lagaleg áhrif hefur hún lagalega þýðingu, enda sýnir hún fram á að samningsaðilar okkar hafa sama skilning og við á þeim forsendum sem við byggjum innleiðinguna á.“

Af hverju í ósköpunum, ef skilningurinn er sá að við þurfum þetta ekki, er þetta þá ekki bara gert samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið? Er ekki furðulegt að svona sé staðið að málum, hv. þingmaður? Ég verð að biðjast afsökunar á stóryrðunum. En er þetta ekki furðulegt?