149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[22:42]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Ég hef farið nokkuð yfir það hvernig afstaða stjórnarflokkanna til þess máls sem við ræðum hér í nokkrum undanförnum ræðum hefur breyst og mig langaði til að bæta aðeins í. Ég rakst á frétt frá RÚV frá því í fyrra, sirka fyrir ári eða svo, með yfirskriftina: Efast um þátttöku í samevrópska orkukerfinu.

Þar er rætt við þingmann Vinstri grænna en hann vill að skoðað verði hvort rétt sé að Ísland verði áfram hluti af regluverki Evrópusambandsins um orkumál og hann óttast að samevrópska orkumálakerfið geti komið í veg fyrir að hægt verði að nýta orkuauðlindirnar hér til að gera Ísland kolefnishlutlaust fyrir 2040.

Þetta er reyndar aðeins nýrri frétt en það liggur sem sagt fyrir að þetta er rétt áður en til kom að við myndum taka þetta mál fyrir hér á þinginu. Það er rifjað upp í frétt RÚV að bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur höfðu ályktað gegn tilskipuninni.

Í ályktun Sjálfstæðisflokksins sagði, með leyfi forseta:

„Sjálfstæðisflokkurinn hafnar frekara framsali á yfirráðum yfir íslenskum orkumarkaði til stofnana Evrópusambandsins.“

Flokksþing Framsóknarmanna ályktaði:

„Framsóknarflokkurinn stendur vörð um fullveldi Íslands í orkumálum og hafnar því að orkulöggjöf Evrópusambandsins verði tekin inn í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið.“

Vinstri græn hafa haft efasemdir um þriðja orkupakkann, segir í fréttinni, höfðu ekki ályktað á þessum tíma þarna fyrir ári þannig að leitað var til þingmanns úr þeirra hópi til að gera grein fyrir afstöðu Vinstri grænna í þessu máli. Fyrir valinu varð hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé. Hann segir hér, með leyfi forseta, í þessari frétt RÚV:

„Sjálfur geri ég marga og mikla fyrirvara við þetta. Ekki endilega bara innihald þessa þriðja orkupakka Evrópusambandsins heldur hvert við stefnum í raun og veru í þessu samevrópska orkukerfi í heild sinni.“

Þetta er athyglisvert í ljósi þess sem síðan hefur gerst. Hv. þm. Kolbeinn Óttarsson Proppé heldur áfram og segir við RÚV:

„Þessi þriðji orkupakki hefur minni áhrif hér heldur en í mörgum öðrum löndum. Það er að segja á meðan við erum ekki tengd evrópska markaðinum beint.“

Fyrirsögn RÚV í þessari frétt er: Óvissa um lagaleg og pólitísk áhrif. Og áfram segir í fréttinni, haft eftir þingmanninum:

„Hann segir að þingmenn verði að setjast yfir málið. Ekki sé hægt að ætlast til þess að þingið afgreiði það án þess að fara ítarlega yfir það.

Þriðji orkupakkinn var nýverið samþykktur á norska Stórþinginu. Þar voru reyndar skiptar skoðanir. Verkalýðshreyfingin var á móti og systurflokkur VG Sósíalski vinstriflokkurinn greiddi atkvæði gegn honum.“

Þarna fyrir ári er afstaða þessa ágæta þingmanns sem sagt þessi. Þegar hv. þingmaður er spurður að því hvort hann sé að tala um að vinda ofan af þeim tilskipunum sem þegar hafi verið samþykktar, þ.e. nr. eitt og nr. tvö, segir hann:

„Ég er að tala um að setjast yfir það og skoða hvort að það sé rétt sem ýmsir hafa haldið fram að það kerfi sem við búum við í dag setji okkur á einhvern hátt stólinn fyrir dyrnar um það að ákveða í hvað við viljum nýta orkuna. Ef að sú athugun leiðir í ljós að svo sé þá er ég alveg skýr með það að við eigum að vinda ofan af því. Því að er ekkert mikilvægara á næstu árum í stjórnmálum en það að vinna gegn loftslagsbreytingum. Og ef það er eitthvað í regluverkinu sem kemur í veg fyrir það, sama hvort það er séríslenskt eða samevrópskt, þá eigum við að hafa kjark til þess að setjast niður og ákveða að því verði að breyta eða ýta á einhvern hátt til hliðar.“

Svo mörg voru þau orð hv. þm. Kolbeins Óttarssonar Proppés fyrir ári — hvað hefur gerst síðan, herra forseti?