149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:37]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir orð hans hér sem fyrr. Það er eitt sem ég velti fyrir mér varðandi þetta mál. Það er það að hér er verið að reyna að keyra í gegn mál, þó að við séum aðeins að móast við, sem er í andstöðu við meirihlutaskoðun þjóðarinnar, u.þ.b. 62–63% þjóðarinnar eru á móti þessu máli. Það er samt reynt að troða því ofan í hálsmálið á fólki.

Ég velti því fyrir mér hvað veldur því að stjórnarflokkarnir hafa svona mikinn áhuga á því að keyra mál í gegnum þingið í andstöðu við meirihlutavilja þjóðarinnar. Við viljum ekki taka þátt í því og erum þess vegna kallaðir illum nöfnum og sakaðir um málþóf vegna þess að við viljum ekki taka þátt í því mótmælalaust að mál sé keyrt hér í gegnum þingið í blóra við skoðanir 62% landsmanna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi skilning á því hvers vegna ríkisstjórnarflokkarnir, og náttúrlega Evrópusinnarnir, vilja endilega keyra þetta mál í andstöðu við þjóðina í gegnum þingið, hvers vegna þeir vilja ekki taka tíma til að gaumgæfa málið ögn til þess að ná jafnvel meiri samstöðu um það. Mér þætti vænt að heyra hvort hv. þingmaður hafi skýringar fyrir mig á þeim þætti.