149. löggjafarþing — 109. fundur,  23. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[23:56]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að víkja aftur að þessu viðtali sem var við nokkra þingmenn um tíuleytið á netmiðlunum og við vorum að ræða í fundarstjórn forseta rétt í þessu. Það skiptir nefnilega verulegu máli að leiðrétta þær rangfærslur sem þar koma fram. Ég hjó sérstaklega eftir því í þessu viðtali að þá segir hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir að það sem hún kallar málþóf Miðflokksmanna skaði ímynd Alþingis. Ég verð að segja að ég skil ekki þannig málflutning, herra forseti.

Við erum að reyna að varpa ljósi á alvarleika þessa máls sem er innleiðing orkutilskipunar Evrópusambandsins, svokallaður þriðji orkupakki sem er pakki af reglugerðum sem kemur til með að hafa áhrif á almenning í landinu. Það er fullkomlega eðlilegt að mál sem þetta, sem er stórt og mikið, sé rætt í þaula. Við höfum verið að benda á reglugerðir sem koma til með að hafa áhrif á almenning í þessu landi og höfum óskað eftir því að hingað kæmu ráðherrar og svöruðu spurningum sem ekki hefur verið svarað. Við höfum hvatt þingmenn til að koma í þingsal og taka þátt í þessari umræðu með okkur en eins og hv. þm. Þorsteinn Sæmundsson nefndi hér réttilega hugnast þeim frekar að sitja frammi í kaffisal og spjalla þar en að taka þátt í þessum umræðum hér með uppbyggilegum hætti.

Eins og ég nefndi segir hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í þessu viðtali að málflutningur okkar skaði ímynd Alþingis. Ég held að það sem skaði ímynd Alþingis í dag sé akkúrat það að verið sé að keyra mál í gegn án nægilegrar umræðu og án þess að það sé nægilega upplýst hvaða áhrif þau geta haft á hag almennings í landinu. Við sáum þetta líka í máli sem var afgreitt fyrir skömmu, svokölluðu þungunarrofsmáli. Það var keyrt í gegnum þingið án nægilega upplýstrar umræðu, án þess að aðilar sem höfðu ýmislegt um það að segja fengju að koma að því máli. Stjórnarþingmanni var neitað um að málið færi aftur í nefndina til að ná sátt í ákveðnum lið sem varðaði viknafjölda þungunarrofs. Það var farið fram á ítarlegri og betur upplýsta umræðu en við því var ekki orðið. Málið var keyrt í gegn. Ef það mál hefur haft einhver áhrif hefur það haft þau áhrif að það hefur skaðað ímynd Alþingis. Síðan er því haldið fram hér af hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur að okkar upplýsti málflutningur hér, þar sem við erum að reyna að varpa ljósi á alvarleika þessa máls, skaði ímynd Alþingis. Ég verð að segja, herra forseti, að ég lýsi furðu minni á svona málflutningi. Það er bara ekki boðlegt að þingmenn setji svona frá sér. Ég held að ástæðan hljóti fyrst og fremst að vera sú að þeir séu bara ekki nógu vel inni í málinu, að þeir hafi ekki kynnt sér það.

Ég hef t.d. rakið í minni ræðu varðandi innleiðingu tilskipunar nr. 72/2009, sem er inni í þessum pakka, að þar sé sérstaklega bent á að það sé skylda eftirlitsyfirvaldsins, eins og það er orðað í þessu — þetta er allt mjög einkennilega þýtt — að tryggja að engar víxlniðurgreiðslur séu milli flutnings-, dreifingar- og afhendingarstarfsemi. Þetta þýðir að dregið verður úr möguleikum opinberra aðila til að niðurgreiða raforku, t.d. til kaldra svæða. Það skiptir verulegu máli í okkar harðbýla og dreifbýla landi. Ég er sannfærður um að margir þingmenn hafa ekki hugmynd um hvaða áhrif þessi reglugerð kemur til með að hafa. Þar vil ég t.d. vitna í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem hann flutti hér í janúar 2003 þegar hann ræddi um orkupakka eitt og tvö. Þar segir hann, með leyfi forseta:

„… menn greiddu hér atkvæði með þessu meira og minna sofandi að því er virtist.“

Ég vil gera þessi orð hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar að mínum.