149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:21]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það var talað dálítið mikið í sjónvarpsfréttum klukkan tíu á RÚV um virðingu Alþingis. Þeir sem hafa haldið uppi umræðum í nokkurn tíma séu að rústa þessari virðingu með framgöngu sinni.

Herra forseti. Ég leyfi mér að halda því fram að það rýri virðingu Alþingis og tiltrú og traust ef Alþingi samþykkir í flaustri mál sem er hætta á að komi þjóðinni illa. Ég held, herra forseti, að það sé það sem rýri traust og trúnað á Alþingi.

En það var svo sem ekki það sem ég ætlaði að ræða um í þessari ræðu. Ég ætlaði að ræða aðeins meira um það að samkvæmt skoðanakönnunum eru 63% þjóðarinnar á móti því að taka upp orkupakka þrjú. Það eru líka fyrirtæki og fyrirtækjasamstæður, alþýðusamtök og fleiri og fleiri. Það var tekið saman á blað hverjir þetta væru og það er m.a. Samband garðyrkjubænda. Í umsögn þeirra til Alþingis segir m.a., með leyfi forseta:

„Samband garðyrkjubænda leggst gegn því að framangreind tillaga til þingsályktunar verði samþykkt og leggur áherslu á eftirfarandi:

Ekki skal ganga til frekari innleiðingar á tilskipunum í orkumálum meðan ekki liggur fyrir óyggjandi og staðfest túlkun á því að Íslendingar fari með fullt forræði yfir raforkumálum hérlendis.“

Herra forseti. Er þetta ekki akkúrat það sem við Miðflokksmenn höfum verið að halda fram í þessari umræðu? Er það ekki svo?

Í þessari samantekt segja garðyrkjubændur item, með leyfi forseta:

„Að ekki verði gengið til þess að tengja Ísland við raforkukerfi annarra landa og að stuðningur við ákveðnar framleiðslugreinar t.d. í formi raforkuniðurgreiðslna til garðyrkju verði áfram heimill samkvæmt lögum.“

Í þessu sambandi er rétt að benda á sérstaka umræðu sem hér var fyrir örfáum dögum, herra forseti, þar sem það stóð upp úr hverjum manni á fætur öðrum að við ættum að styrkja og styðja garðyrkjuna okkar til að framleiðsla hennar yrði fjölbreyttari, til þess að flytja þyrfti minna inn til þess að minnka kolefnissporið. Þetta stóð upp úr hverjum manni. Síðan koma menn og lemja greinina með sandpoka í hnakkann með því að samþykkja þriðja orkupakkann sem Samband garðyrkjubænda hefur haldið fram að muni rústa greininni. Hvar er nú virðing Alþingis og traust og trúnaður?

Ég held að menn ættu aðeins að líta í eigin barm. Ég held að menn ættu að líta sér nær áður en þeir fara fram með svona sleggjudóma eins og hafa komið fram í kvöld varðandi þá umræðu sem hér hefur staðið í nokkuð dægur. Við erum að taka upp hanskann, m.a. fyrir garðyrkjuna og alþýðusamtök. Vilhjálmur Birgisson hefur m.a. sagt, með leyfi forseta:

„Það blasir við í mínum huga að allir þessir orkupakkar […] séu vegvísar að því að við sem þjóð getum hægt og bítandi misst yfirráðarétt okkar yfir einni af okkar mikilvægustu auðlind sem eru orkuauðlindirnar.“

Það er þess vegna, herra forseti, sem við stöndum hér og höldum áfram að móast við að þessi pakki verði tekinn inn í íslenska löggjöf í því formi sem hann er nú. Við höfum bent á leið til úrbóta. Við höfum bent á það hvernig sé hægt að bæta úr þessu máli þannig að hægt sé að innleiða orkupakka þrjú án þess að það skaði land og þjóð. En það er ekki hlustað á það. Ég ítreka að ekkert vildi ég frekar en að hafa rangt fyrir mér í þessu máli. Komi það í ljós, eins og ég sagði áðan, mun ég viðurkenna það fyrstur manna.

Góðu fréttirnar eru þær, herra forseti, að nú í dag undirstrikaði hæstv. utanríkisráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson sameiginlegan skilning á upptöku þriðja orkupakkans á fundi EES-ráðsins í Brussel. En samkvæmt fréttinni undirstrikaði hann þennan sameiginlega skilning einn.