149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[00:44]
Horfa

Karl Gauti Hjaltason (M):

Herra forseti. Ég hef rætt í mínum fyrri ræðum í fyrsta lagi ítarlega um virkjunarsögu Íslands og tengsl þeirra sögu, byggingu virkjana, stórvirkjana við stóriðju þar sem við Íslendingar þurftum að taka stór lán á þeirra tíma vísu þegar við hófum þessa vegferð við byggingu Búrfells og selja orkuna til stóriðju.

Og síðan áfram veginn, þegar við erum að virkja hvert stórfljótið á fætur öðru. Ég fór yfir væntingar landsmanna til þessarar auðlindar í samhengi við það átak sem við fórum í eftir fyrri hluta síðustu aldar og fram til dagsins í dag. Væntingar landsmanna eru þær að hér verði ódýr orka til almennings, ódýr orka til atvinnufyrirtækja hér innan lands.

Þess vegna er þetta ríkt í hugum landsmanna, vegna sögunnar og tengingar við þau verkefni sem ég nefndi. Flestir landsmenn hafa ríkar skoðanir á hvað beri að gera við orkuauðlindir.

Ég fór líka yfir lagalegu fyrirvarana í ræðum mínum. Ég flutti fréttir af leitinni að lagalega fyrirvaranum og lagði út frá þeim ummælum sem þingmenn stjórnarliðsins hafa látið sér um munn fara um hvað þeir telji vera lagalegan fyrirvara. Við höfum fimm tilgátur um hvar hann sé að finna og ég fór yfir þær allar, rökstuddi hvaða annmarka ég sæi á þeim og taldi engan þeirra standast ef upp kæmi ágreiningur eða einhver tilvik varðandi evrópsku orkutilskipun. Þeir hafa ekkert þjóðréttarlegt gildi þegar til kemur. Þeir eru bara til heimabrúks.

En ég ætla að gefa stjórninni fullan slaka í því efni og ætla þeim að þeir geti upplýst okkur betur um hvar þennan lagalega fyrirvara sé að finna.

Ég ætla í þessari ræðu að koma örlítið inn á stjórnskipulega fyrirvarann, sem er allt annar hlutur og er ekki nema von að fólk rugli þessu saman. Ég ætla að ræða hér stjórnskipulega fyrirvarann og endursendingu málsins til sameiginlegu EES-nefndarinnar.

Vegna þess að margir, og þá sérstaklega stjórnarþingmenn, hafa talið það óráð og hafnað því ítrekað að senda málið aftur til meðferðar hjá sameiginlegu EES-nefndinni, vil ég aðeins ræða um þann fyrirvara sem við settum þegar við samþykktum að stefna að innleiðingu þriðju orkutilskipun Evrópusambandsins. Þann fyrirvara settum við fyrir sameiginlegu EES-nefndinni, eins og venja er að gera ef talið er að breyta þurfi löggjöf innan lands í einhverjum ríkjanna. Fyrirvarinn fjallar um að ef Alþingi afléttir honum, sem við munum gera með þessari þingsályktun, erum við búin að skuldbinda okkur til að breyta lögum. Að engin lög sem hér eru innan lands gangi í berhögg við tilskipunina sem verið er að innleiða.

Það er svo einfalt.

Þess vegna tengist þetta lagalega fyrirvaranum sem við teljum okkur vera að gera hér innan lands. Hann má auðvitað ekki ganga í berhögg við orkutilskipun Evrópusambandsins. Það er bara svo einfalt.

Í tilefni af því hiki sem kemur á menn þegar þetta er nefnt — eða má kalla það ótta? — er á það að benda að ef Alþingi lítur svo á að beiting hins stjórnskipulega fyrirvara með höfnun máls og eftirfarandi meðferð þess að nýju fyrir sameiginlegu EES-nefndinni samkvæmt 102. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið, feli í sér uppsögn á samningnum og að sú leið sé ekki fær, er Alþingi þar með að viðurkenna að stjórnskipulegi fyrirvarinn sem settur var hafi enga þýðingu.

Ef menn þora ekki eða geta ekki eða telja ómögulegt að hafna þessu og fara aftur fyrir sameiginlegu EES-nefndina eru þeir jafnframt að segja að stjórnskipulegur fyrirvari hafi enga þýðingu.