149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:27]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Afleiðingarnar — ég held að það sé einmitt kjarni málsins að þetta mál mun hafa afleiðingar. Það mun hafa afleiðingar fyrir almenning, verði það samþykkt án þess að fengin verði varanleg undanþága frá þessari tilskipun með þeim lögformlegu leiðum sem við höfum, sem er að fara með málið fyrir sameiginlegu EES-nefndina. Það verður ekki gert samkvæmt stjórnarflokkunum. Vonandi verða sinnaskipti í þeim efnum og vonandi hefur þessi umræða hér, sem er mjög mikilvæg, vakið stjórnarflokkana og þeirra meðreiðarsveina, sem eru Samfylkingin, Píratar og Viðreisn, til umhugsunar um það á hvaða vegferð þeir eru.

Auk þess held ég að menn hljóti að sjá að sér þegar við höfum rifjað svo rækilega upp hvaða afleiðingar og hvaða áhrif fyrri orkupakkar hafa haft á almenning í landinu. Vonandi hafa þeir þingmenn og þingkonur sem hafa farið með rangfærslur, t.d. kallað fram í hér í þingsal að raforkuverð hafi ekki hækkað, að það sé bara rangt, séð að sér í þessum efnum og áttað sig á því hverjar afleiðingarnar voru og vonandi fara þau að endurskoða afstöðu sína til þessa máls. Því að orkupakki þrjú er miklu stærri en orkupakki eitt og tvö og afleiðingarnar verða þar af leiðandi miklu meiri.