149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[01:42]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Já, hv. þingmaður hitti þarna naglann á höfuðið þegar hann sagði einmitt „til að ná þeim markmiðum“. Þess vegna held ég að það sé nokkuð ljóst að markmiðið er að stíga þetta skref til fulls, að taka þátt í þessum sameiginlega markaði. Þá spyr maður: Þegar lagt er í svona gríðarlegar fjárfestingar er þá ekki alveg gefið mál að ef þessi orkupakki yrði ekki innleiddur, það væri bara undanþága sem við fengjum með þessari lögformlegu leið í gegnum sameiginlegu EES-nefndina, og þá væru í raun og veru allar þessar forsendur sem fjárfestar og þeir sem eru að kaupa land og virkjunarleyfi og hyggjast fara út í gríðarlegar fjárfestingar — er þá ekki verið að koma í veg fyrir að áform þeirra gangi upp? Og þar með sjáum við fyrirtæki sem leggja í svona gríðarlegar fjárfestingar náttúrlega beita sér, þau þrýsta á þá sem hafa með þetta að gera. Er þá ekki mjög líklegt að sú áhersla sem lögð er á að keyra þetta mál í gegn eigi sér miklu dýpri rætur, þ.e. þennan þrýsting sem þessi fyrirtæki leggja að stjórnvöldum? Það er ekkert óeðlilegt að menn tali fyrir sínu máli. Þetta er þekkt í stjórnmálunum víða um heim. Fyrirtæki hafa (Forseti hringir.) hagsmunaaðila sem tala þeirra máli. En er þetta ekki málið? Er ekki (Forseti hringir.) hættan kannski sú að öll þessi áform falli niður ef (Forseti hringir.) þetta verður samþykkt?