149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[02:24]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa ágætu ræðu. Hann vék þar að mjög mikilvægu máli sem hefur verið afskaplega lítið rætt í tengslum við þetta mál, áliðnaðinum á Íslandi. Hv. þingmaður nefndi fyrirtækið Alcoa á Austfjörðum sem hefur haft mjög mikla þýðingu fyrir samfélagið fyrir austan, jákvæða þýðingu, held ég að megi alveg fullyrða. Þess vegna er mjög eðlilegt að það sé rætt hvaða áhrif þetta getur haft á þá grein.

Þess vegna hefði t.d. verið kjörið að hæstv. iðnaðarráðherra hefði komið hingað og tekið þátt í umræðunni.

En það sem ég vildi fá álit hv. þingmanns á er hvaða áhrif hann telji að þetta geti haft á raforkusamninga við álverin þegar fram líða stundir. Nú renna þeir samningar út eftir tiltekinn tíma og við erum að sjá fram á það að innan ekki svo langs tíma verði kominn sæstrengur. Ef áform ganga eftir um að innleiða orkupakka þrjú, sem er ekkert annað en undirbúningur að sæstreng og sölu orku til Evrópu — er ekki sú hætta fyrir hendi að raforkusamningar við álfyrirtækin verði í raun og veru í uppnámi? Hér er alltaf talað um EES-samninginn, hann verði í uppnámi. Erum við ekki bara komin með mjög mikilvæga samninga fyrir þjóðarbúið sem gætu verið í uppnámi?