149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Þórarinssyni andsvarið. Svo að ég byrji á spurningunni, sem þingmaðurinn setti fram hér í lokin, varðandi sjónarmið Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgunblaðsins, sem hann setur fram í grein, væntanlega á bloggsíðu sinni — síðan birtist frétt upp úr því á Viljanum — um að um sé að ræða stærstu mistök Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum í sögu flokksins. Það velkist enginn í vafa um að Styrmir Gunnarsson hefur haft innsýn í innri störf Sjálfstæðisflokksins lengur en flestir og betri aðgang að upplýsingum en flestir. Þetta mat hans — þá er ég að gefa mér að hann líti ekki á sinnaskipti Sjálfstæðisflokksins í Icesave-málinu á sínum tíma sem utanríkismál, sem er í mínum huga helst í námunda við þá ákvörðun sem hér um ræðir. En ég held að það verði bara að fá að standa eitt og sér að umræddur einstaklingur, í ljósi sögu hans og tengsla við flokkinn, sé þeirrar skoðunar að hér séu mestu mistök Sjálfstæðisflokksins í utanríkismálum í uppsiglingu. Það er býsna merkileg yfirlýsing.

Á sama tíma er auðvitað mjög merkilegt að fram virðist fara Íslandsmeistaramót í þagnarbindindi á milli stjórnmálaflokka í málinu. Þá á ég við afstöðu eða afstöðuleysi Framsóknarflokks og þingflokks Vinstri grænna í tengslum við málið. Báðir flokkarnir virðast telja skynsamlegt að leyfa (Forseti hringir.) málinu að ganga fram undir merkjum Sjálfstæðisflokksins. Ég hef auðvitað ákveðinn skilning á því.