149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:09]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Sæmundssyni andsvarið. Ég er hræddur um að þessi misserin reyni nokkuð á þanþol kjarnafylgis Sjálfstæðisflokksins gagnvart túlkunum þingflokksins á landsfundarályktunum. Þetta mat mitt set ég fram sem flokksbundinn Sjálfstæðisflokksmaður til áratuga og líka af drjúgri væntumþykju til þessa merkilega stjórnmálaflokks. Ástæðan fyrir því að ég tala hér um að reynt sé á þanþolið gagnvart kjarnastuðningsmönnum flokksins eru tvö mál sem eru nú í gangi, sem ályktað var um með mjög ákveðnum hætti en þó þannig að eins og kallað er í sal voru gerðar smávægilegar, að því er menn vildu meina, tæknilegar lagfæringar á orðalagi sem síðan kom á daginn að var úthugsuð leið til þess að geta komist fram hjá því.

Þetta var í tveimur málum sem mikið hafa verið rædd undanfarið, annars vegar uppbygging Landspítala á umferðareyjunni við Hringbraut og hins vegar þessi innleiðing þriðja orkupakkans. Mér kæmi það mjög á óvart ef bæði þessi mál væru ekki þannig vaxin að töluverður pirringur eða ónot færu í gegnum kjarnafylgi Sjálfstæðisflokksins vegna þess hvernig þingflokkurinn ákveður að leita leiða í kringum ályktanir landsfundar.