149. löggjafarþing — 109. fundur,  24. maí 2019.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 93/2017, um breytingu á IV. viðauka (Orka) við EES-samninginn.

777. mál
[03:13]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka andsvarið. Það var viljandi að ég nefndi ekki heilbrigðiskerfið og hanteringu núverandi heilbrigðisráðherra á því. Ástæðan er sú að Sjálfstæðisflokkurinn er hokinn af reynslu hvað það varðar að vera í samstarfi við flokka sem mætti kannski ætla að gæti verið erfitt fyrir flokkinn að vera í samstarfi við á köflum. Þannig að ég dreg það ekki í efa og er þess fullviss, og það hefur birst í greinum þingmanna Sjálfstæðisflokksins, að mikið óþol er gagnvart þeirri stefnu sem rekin er í heilbrigðismálum þessa stundina.

En það sem gerir hin tvö málin svo sérstaklega erfið fyrir kjarnafylgi Sjálfstæðisflokksins er að bæði eru þau mál þeirrar gerðar að flokkurinn sjálfur hefur tök á þeim. Flokkurinn sjálfur stýrir málum. En í tilfelli heilbrigðismálanna er það samstarfsráðherra Vinstri grænna sem fer fyrir þeim málaflokki.

Varðandi Landspítalann og innleiðingu þriðja orkupakkans hefur Sjálfstæðisflokkurinn kontról. Það er það sem er erfitt.